Saturday, November 4, 2017

Ljúfsárir endurfundir

Þetta er eiginlega dálítið fyndið. Fann þessa bloggsíðu aftur. Það eru mörg ár síðan ég skrifaði síðast inn á þessa síðu. Það las enginn bloggið mitt þá. Geri ekki ráð fyrir að það eigi eftir að breytast mikið.

Ég las yfir gömlu færslurnar. Þær hefjast á pælingum um jólabókaflóðið 2006. Hef líklega ætlað mér að koma með gáfulegt innlegg og spekingslegar pælingar um vinsælustu bækurnar. Þó svo að textinn sé ekki lélegur þá er innihaldið rýrt.

Þessar færslur hafa verið skrifaðar um það leyti sem Þóra var að ljúka síðustu ferðunum austur fyrir Bechtel. Ég er einnig að klára jólafrí og lesa eina af bókum hans Brian Green um gerð alheimsins.

En ég hef einnig verið gríðarlega neikvæður gagnvart kennslunni, þjóðfélaginu og sjálfum mér á þessum tíma. Það er hálf sorglegt að átta sig á hversu mikið hefur í raun breyst frá þessum tíma og hvert þessi neikvæðni hefur leitt mig. Neikvæðnin er því miður enn fylgifiskur. Verð samt sífellt meðvitaðri.

Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.

Ekki reyna að vera eitthvað annað en þú ert.

HÆTTU AÐ REYNA!

Friday, March 2, 2007

Ræpan eykst

Loksins komin helgi. Var farinn að örvænta. Hélt um miðja viku að tíminn stæði í stað. En nú er svo komið að tveir frídagar eru framundan þó svo að ég verði að fara yfir ritanir, ritgerðir og stærðfræðipróf þessa daga. Ætti kannski að vera að gera það núna í staðinn fyrir að skrifa inn á bloggið mitt.

Hef ekki ennþá fengið nein viðbrögð við síðasta bloggi. Vildi fá blammeringar á hin ýmsu störf í þjóðfélaginu. Félagi minn sat á fundi með hússtjórn byggingar hér í bæ. Þeir þurfa að fá eftirlitsmann, tæknimenntaðan til að fylgjast með viðgerðum og breytingum sem þarf að gera á byggingunni. Þeir fást ekki til þess fyrir minni pening en 400.000 kr. Viðkomandi einstaklingar eru svo oft með tvær til þrjár byggingar í einu og láta nægja að líta við endrum og eins til að athuga hvort allt sé í lagi. Ég spyr bara: "ER SVONA BULL Í LAGI?" Þetta þjóðfélag er komið út í tómt rugl þegar laun eru annars vegar. Þetta eru svo kannski einstaklingarnir sem gagnrýna kennaralaunin hvað mest.

Thursday, March 1, 2007

Eitthvað er fólk að heimta...

Var skyndilega minntur á að ég héldi úti bloggsíðu. Hef ekkert skrifað í einhverjar vikur. Ætla ekki að afsaka það enda hef ég ekkert mér til afsökunar.

Það er nokkuð ljóst að sú stétt sem ég tilheyri er í mikilli vörn þessa dagana. Alltaf erum við sökuð um að vera ekki að vinna vinnuna okkar. Og alltaf erum við sívælandi út af launum sem við eigum hvort eð er ekki skilið að fá vegna þess að við erum aldrei í vinnunni heldur sífellt í fríi. Búin að kenna klukkan eitt á daginn og yfirleitt að slæpast það sem eftir er dagsins heima hjá okkur.

Þetta er náttúrlega allt dagsatt og því ætla ég ekki að reyna rökstyðja eða afsaka neitt annað. Aftur á móti ætla ég að velta upp nokkrum spurningum sem við getum notað á móti í þessari umræðu.

Ef um ræðir smiði: "Hva, eru smiðir ekki alltaf að vinna svart og svíkja undan skatti?"
Læknar: "Hvernig er þetta með lyfjafyrirtækin. Fórstu á síðustu kynningu? Hvað færð þú mikið í þinn hlut?"
Einkarekin fyrirtæki: "Hva, er bíllinn skráður á fyrirtækið?"

O.s.frv.

Endilega sendið mér línu ef þið viljið bæta einhverju við.

Tuesday, January 16, 2007

Rembist eins og rjúpan

Hvaðan kemur þetta orðatiltæki. Reynir rjúpan að sitja á staur í miklu roki eða hefur þetta einhverja aðra merkingu? Alltaf skemmtilegt að velta þessum hlutum fyrir sér, sérstaklega þegar maður nennir ekki að fletta þeim upp.

Nokkrir dagar síðan ég bloggaði síðast. Ákvað því að henda inn nokkrum setningum. Stefni að því að setja inn fleiri þegar líður á daginn. Lauk við bókina "The fabric of the cosmos - Time, Space and the Texture of Reality" í gærkvöldi. Ótrúlega góð en var orðinn svolítið þreyttur á henni í lokin. Þriggja mánaða ferli að lesa svona bækur. Tók því upp fyrri bók höfundar "Elegant universe". Fjallar nánast um sama efni nema hann hefur leikinn á aðal hugðarefni sínu strengjakenningunni. Sendi ykkur pistla við og við.

Veðrið alltaf yndislegt!?! Skafrenningurinn ætti þó að vera búinn, allt búið að fjúka sem getur fokið. Nú mætti hitastigið fara upp um nokkrar gráður svo hægt sé að þjappa snjóinn á skíðasvæðunum. Þekki einn sem myndi fagna því mikið.

Friday, January 12, 2007

The manic blogger

Það er ekkert auðvelt að halda úti bloggsíðu og láta sér detta eitthvað skemmtilegt í hug á hverjum degi. Eitthvað vandamál er með þjónustuaðilann minn því það náðist ekki samband við hann í fyrradag þegar ég skrifaði þvílíkan pistil um sjónvarpsdagskrána. Las hann svo yfir seinna og komst að því að hann var hundleiðinlegur. Ákvað því að setja hann ekki á síðuna.

Nú snjóar og snjóar. Ekki það besta fyrir okkur hlauparana. Færðin þung, hver kílómetri þyngri en birgðar heimsins en ánægjan er yfirleitt mikil þegar komið er heim. Því erfiðara sem hlaupið verður því meira er lagt inn á reikninginn í þjálfunarbankanum.

Þóra kemur heim í dag eftir þriggja daga útlegð. Hélt hún væri laus við Bechtel hraðlestina. Kom svo í ljós að allt fór í hönk um leið og hún var farin. Hún var búin að vera í burtu í hálfan mánuð þegar neyðarástand myndaðist í þjálfunarmálum. Spurning hvort verður flogið ef færðin er svona slæm. Ef það er álíka snjókoma fyrir austan og hér, þá er spurning með Fagradalinn. Hún verður EKKI ánægð ef hún kemst ekki heim. Það er fátt leiðinlegra en að verða veðurteptur fyrir austun. Austurlandið er ágætis pleis og allt það á góðum degi en hrikalegt þegar þú villt ekki vera þar.

Best ég taki einn stuttan 10 km sprett í ævintýraborginni Reykjavík. Geri það áður en Þóra kemur. Tek svo á móti henni sveittur og sætur þegar hún lendir. Gott plan fyrir daginn. Spurning hvort ég villist?

Tuesday, January 9, 2007

Er okkur alveg sama

Það er allur vindur úr íslensku samfélagi. Við látum allt yfir okkur ganga. Við erum fámenn þjóð sem heldur þingkosningar á fjögurra ára fresti. Fagurgalinn er mikill rétt fyrir þingkosningar en um leið og úrslit liggja fyrir slitna öll tengsl þingmanna við samfélagið og þeir hefjast handa við að bjarga eigin hagsmunum og troða pyngjuna, nokk sama okkur sem þurfum að lifa þeirra gjörðir frá degi til dags. Að vísu eltu margir Ómar Ragnarsson niður Laugarveginn þegar hann fylgdi sannfæringu sinni og létu vita að þeir væru sammála. Ég held samt að allir hafi vitað að þær aðgerðir voru allt of seint á ferðinni. Það var ekki nokkur leið að snúa við þeim framkvæmdum sem þegar voru risnar, of miklir peningar í húfi.

Nú krefst ég þess að ráðamenn þjóðarinnar geri eitthvað. Við borgum 60% meira fyrir matvöru á Íslandi heldur en í Evrópu. Nú dugir enginn fagurgali og þvoglumæltar fegurðaraðgerðir. Gerið eitthvað í málinu, þetta er alveg óþolandi. Og við hin sem höfum lítil sem engin völd, við verðum að gera eitthvað í málinu og nú er ég opinn fyrir hugmyndum.

Friday, January 5, 2007

Homo Sapiens vs. Homo Fictious

Fimmti janúar er risinn og allt með kyrrum kjörum á Vesturvígstöðunum. Með frið í hjarta og gleði í sinni hélt ég til vinnu í morgun mikið feginn því að hafa loksins tekist að koma blessuðum sólarhringnum aftur á réttan kjöl. Ég jafnframt lofa því að tala ekki frekar um svefnvenjur mínar nema eitthvað skemmtilegt gerist í þeim geiranum.

Las með morgunseríosinu (verð líklega að skilgreina það frá hádegis- og kvöldseríosinu) upphafið af bók sem heitir: "How to write a damn good novel." Fyrsti hluti þeirrar ágætu bókar fjallar um persónusköpun og þá staðreynd að mannverur eru leiðinlegar en skáldsagnapersónur skemmtilegar, athyglisverðar og frábærar. Þær eru sterkari, ríkari, grimmari, miskunnlausari, fallegri, ljótari, stunda meira kynlíf eða hreinlega á allan hátt flottari en við mannfólkið sem virðumst sulla um í meðalmennskunni meira en góðu hófi gegnir. Þess vegna hef ég ákveðið í dag að lifa lífinu eins og Ríkharður Ljónshjarta... (kannski ekki góð hugmynd þar sem hann lifði skírlífi) eða James Bond (úhhh... það er sko nagli sem stundar fullt af kynlífi) eða Bósi Ljósár, Logi Geimgengill eða eða eða...

Ætli ég verði ekki að sætta mig við að vera Meðal-Jón sem gerir aldrei neitt athyglisvert sem birta ætti í bók eða á forsíðum blaða. Þjóðarsál Íslendinga segir þó að maður sé ekki maður með mönnum fyrr en mynd og grein hefur verið birt í DV. Þá fyrst má setja fólk í annála og bera það á torg. Alltaf dreymt t.d. að verða flugdólgur.

Seinni hluta dagsins í dag ætla ég að nota til að þrífa, syngja, hlaupa og sofa. Ég ætla að framkvæma þessa hluti eins og James Bond myndi annast þá. Í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og lakkskóm ætla ég að skúra og skrúbba allt hátt og lágt. Þetta mun ég gera án þess að svitna eða fá svo mikið sem einn skítablett á fötin. Alveg eins og JB eftir að hann er búinn að drepa þrjátíu, sprengja upp þyrluna og skríða um skólpræsið til að flýja hryðjuverkamennina.

Hallelúja...